fridrikv.is

Friðrik V Restaurant

Spínat-, hnetu- og baunafylltur lambabógur með kartöfluköku

Fylltur lambabógur (fyrir fjóra )

Hitið ofninn í 200°c


Fylling: 

½ l spínatblöð ( án stilka)

1 msk smjör

¼ dl kjúklingabaunir

¼ dl þurrkaðar kastaníuhnetur

¼ dl furuhnetur

5 hvítlauksrif

¼ dl sólþurrkaðir tómatar 

2 msk rósmarinnálar

4 sveppir

2 msk jómfrúar-ólífuolía

1-2 msk brauðrasp

salt og pipar

1 lambabógur með beini


Látið baunirnar liggja í vatni yfir nótt ásamt kastaníuhnetunum. Sjóðið baunirnar í þrjátíu til fjörutíu mínútur við væga suðu. Á meðan er bógurinn úrbeinaður, fitu- og sinahreinsaður og bógvöðvinn skorinn til þannig að bógurinn verði jafn þykkur þegar honum er rúllað upp, höggvið beinin niður og brúnið í ofninum í tíu til tólf mínútur og setjið yfir soð. Flysjið hvítlauksrifin og skerið í teninga ásamt kastaníuhnetunum og tómötunum (athugið að skera hráefnið ekki of smátt). Skolið sveppina og skerið í teninga, saxið rósmarinnálarnar smátt. Skolið spínatið vel upp úr köldu vatni og sjóðið létt í litlu vatni og smjörinu. Hellið í sigti, kælið með rennandi vatni og látið renna vel af. Þegar baunirnar eru soðnar eru þær kældar undir rennandi vatni og látið renna vel af þeim. Hitið olíuna á pönnu, setjið hvítlaukinn og hneturnar á og brúnið létt áður en tómatarnir og sveppirnir eru settir saman við og brúnaðir létt, þá eru baunirnar settar saman við ásamt rósmarin og blandan er krydduð til með salti og pipar. Breiðið bóginn út á borðið, þerrið vel, kryddið með nýmuldum svörtum pipar, leggið spínatblöðin ofan á kjötið, setjið helminginn af fyllingunni í skál og blandið brauðraspi saman við. Setjið fyllinguna ofan á spínatið og gætið þess að hún sé jöfn. Rúllið kjötinu jafnt upp og bindið saman eða setjið í net. Brúnið rúlluna á pönnu áður en hún er sett í eldfast mót ofan á afganginn af fyllingunni og síðan steikt í ofni við 165°c í eina klukkustund. Þá er rúllan látin standa í tíu mínútur áður en hún er sneidd og borin fram. 


Kartöflukaka með múskat og parmesanosti

4 bökunarkartöflur

3 msk. ferskur parmesan (rifinn) 

3 msk. steinselja (söxuð) 

salt 

nýmulinn pipar

nýmulið múskat 

2 egg 

1 tsk. olía 


Sjóðið kartöflurnar í u.þ.b. 20 mínútur, kælið og flysjið. Smyrjið lítið hringlaga ofnmót með olíunni, skerið kartöflurnar í 3-4 mm þykkar sneiðar og raðið í botninn á mótinu. Kryddið með salti, pipar og múskat, stráið steinselju og parmesan yfir og raðið síðan aftur kartöflum, kryddið, stráið osti og parmesan, og síðan koll af kolli þar til formið er fullt. Þá eru eggin þeytt vel sundur og þeim hellt yfir kartöflurnar. Setjið mótið inn í ofn og bakið í tíu mín., takið þá út og hvolfið úr mótinu á ofnplötu og stráið parmesan og múskati yfir og bakið áfram í ofninum í u.þ.b. tíu mínútur eða þar til að yfirborðið er fallega brúnað. Skerið kartöflukökuna í fjóra til sex parta þannig að þeir líti út eins og tertusneið. 


Hvítvínssoðinn rauðlaukur

4 litlir rauðlaukar 

1 ½ dl hvítvín 

1 tsk jómfrúarólífuolía 

1 kvistur rósmarin 

salt og pipar 

½ tsk hunang 


Leggið laukinn í bleyti og flysjið hann án þess að nota beittan hníf. Blandið öllu í pott og hitið að suðu áður en laukurinn er settur út í. Sjóðið laukinn við væga suðu í tuttugu mínútur undir loki og látið síðan standa í hálfa klukkustund í lokuðum pottinum áður en borið er fram. Athugið að hvítvínið á ekki að fljóta yfir laukinn í pottinum, það er gufan sem á að sjóða laukinn. Þess vegna þarf lokið að vera vel þétt á pottinum, annars verður árangurinn ekki góður.

Mynd augnabliksins

slovenia_dagur_3___4_048.jpg

Deildin

Framsetning efnis

English
moya - Útgáfa 1.12 2007 - Stefna ehf

Innskráning